Fyrsta æfing vorannar var þriðjudaginn 13. janúar. Óskalög sjómanna verður þema vetrarins og tónleikarnir um vorið tileinkaðir íslenskum sjómannskonum.
Við erum 115 sem byrjum vorönn
Árshátíð Léttsveitarinnar var haldin í Vodafonehöllinni laugardaginn 21. febrúar. “Hafið lokkar og laðar” var þema hátíðarinnar og salurinn skreyttur í samræmi við það. Söngatriði voru á dagskrá og hljómsveitin Hafrót lék fyrir dansi.
Haldið var í æfingabúðir í Reykholt í Borgarfirði föstudaginn 24. apríl. Æft var í kirkjunni á laugardeginum og tónleikar haldnir þar kl. 16.00. Ekki óraði okkur fyrir því að kosningar til Alþingis yrðu settar á þennan dag þegar við bókuðum kirkjuna. Það varð þó ekki aftur snúið með það og ákveðið að láta slag standa. Aðsókn á tónleikana var dræm, enda ekki bara kosningadagur, heldur líka bæði afmæli og héraðshátið með tilheyrandi uppákomum um allar sveitir. Við vorum þrátt fyrir þetta afar ánægðar með vel lukkaða tónleika og litum á þetta sem góða æfingu fyrir vortónleika okkar sem voru á næstu grösum.
Kórinn söng í afmælisteiti Jóns Kr. Ólafssonar sem vinir hans héldu í sal FÍH, í öðru afmæli og var með söngskemmtun í Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Þá tók Léttsveitin þátt í göngu upp Laugaveginn, þann 23. maí, í minningu þvottakvenna sem gengu inn í Laugardal og þvoðu þvott sinn þar. Þessi viðburður var á vegum Listahátíðar Reykjavíkur.
Fyrsta æfing á haustönn var þriðjudaginn 1. september í Fóstbræðraheimilinu.
Aðalfundur Léttsveitarinnar var haldinn 18. september. Fráfarandi formaður, Freyja Önundardóttir, flutti yfirlit vetrarins. Gjaldkeri fór yfir ársreikningar og kosin var ný stjórn. Úr stjórn gegnu Freyja Önundardóttir, Sigrún Birgisdóttir og Elísabet Grettisdóttir. Í stað þeirra komu í stjórn Margrét Þorvaldsdóttir sem kosin var nýr formaður, María Björk Viðarsdóttir og Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir.
Stjórn Léttsveitarinnar haust 2007 - haust 2008
Margrét Þorvaldsdóttir, 1. sópran, formaður
Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, 2. sópran, varaformaður
María Björk Viðarsdóttir, 2. alt, , gjaldkeri
Oddný Sigsteinsdóttir, 2. alt, varagjaldkeri
Herdís Eiríksdóttir, 2. sópran, ritari
Laugardaginn 26. september fór Léttsveitin á Suðurnesin.
Keyrt var í gegnum Voga á Vatnsleysuströnd, síðan í Sandgerði og skoðað safn. Í Keflavik var stoppað í kerta- og glerverksmiðju og keyptu Léttur upp nánast allan lagerin af kertunum. Sungið í Grindavíkurkirkju og var vel við hæfi að syngja sjómannalögin í sól, roki og rigningu. Frábærir tónleikar í alla staði. Snætt var á veitingahúsi í Grindavík og haldið heim um kl. 22.00 eftir frábæra ferð.
Langur sunnudagur var 18. október í Fóstbræðraheimilinu.
Jólatónleikar þriðjudaginn 8. desember kl. 20.00 og laugardaginn 12. desember kl. 16.00. Báðir tónleikarnir voru í Bústaðakirkju. Einsöngvari á þessum tónleikum var stórtenórinn Kristján Jóhannsson og fiðluleikari Hjörleifur Valsson. Fallegir tónleikar fyrir fullu húsi í bæði skiptin.
Vortónleikar Léttsveitarinnar báru að þessu sinni yfirskriftina "Óskalög sjómanna". Tónleikarnir voru í Háskólabíói 3. maí og sungið var fyrir fullu húsi. Gestasöngvarar voru Gylfi Ægisson og Helena Eyjólfsdóttir. Ótrúlega flottir og skemmtilegir tónleikar.