Bréf frá Léttsveitarkonu um tónleikana Fljóð og funi.

Kæru þið.
Það kom að því að ég ætti erindi við alla Léttsveitina eins og hún leggur
sig. Ég hef nefnilega dálítið að segja sem kemur ykkur líklega ekki mjög á
óvart en samt....

Ég hef verið félagi í Léttsveitinni frá upphafi vega. 1995 byrjaði það.
Síðan þá hef ég sungið með á öllum tónleikum kórsins og tekið þátt í
ótalmörgum uppákomum hér og þar. Það sem ég hafði hins vegar aldrei gert
fyrr en á laugardagskvöldið síðasta, var að vera áhorfandi og hlustandi á
tónleikum. Um þessa reynslu verð ég að tjá mig örlítið.

og þá hefst sagan.

Á ég, á ég ekki, á ég, á ég ekki???? Jú ég verð.... ég get ekki bara legið
hér í mínu hitamóki og leiðindum á meðan félagarnir í Léttsveitinni eru að
syngja, verð að fara..... sturta, einhver föt, múta litla syninum til að
koma með mér, allt í lagi, kaupi karamellur, banna honum að hósta á meðan.
Kem fyrst og sest á besta stað þó ekki fyrir miðju ef ég fengi hóstakast.
Fyrir aftan mig setjast fljótlega hjón. Þau lesa dagskrána og spjalla saman.

Hún: Þetta eru nú meiri textarnir, hvernig getur hún (sú sem þau voru komin
til að sjá) lært þetta allt saman? Þetta gæti ég aldrei.
Hann: Já þetta er nú meira, þetta er einhver finnska eða eitthvað...Zakukala
zesulenka og svo hérna Slavikovský ploencko malý!!! Hvernig er þetta hægt.
Hún: Hún ....mín er aldeilis klár.

.... og áfram héldu þau.

Svo rann stundin upp. Ég var nú bara alveg róleg, tiltölulega ósnortin, veit
ekki eiginlega við hverju ég bjóst. Kannski var ég bara þarna af gömlum
vana. Maður bara mætir meðan fært er.
En... þegar þið.. já þið, hófuð inngönguna í salinn.. í rauðu kjólunum
ykkar... ótrúlega léttar í framkomu og brosandi... þá byrjaði ævintýrið.
Frá þeirri stundu og allt til lokatónanna var ég stoltasta manneskjan í
salnum. Ég fann í fyrsta skipti á 8 árum fyrir ekta gegnheilu stolti yfir
því að vera hluti af þessum kór.
Af hverju tók ég ekki mömmu með, já og allar vinkonurnar og frænkurnar og
þeirra menn og börn.......

Kannski þurfti ég að sjá kórinn og heyra án þess að vera þátttakandi.
Kannski er kórinn orðinn svona frábærlega góður.
Kannski hefur framkoman breyst.
Kannski eitthvað annað sem ég get ekki skilgreint.
Kannski allt þetta.
Allavega.. það sem snerti mig mest og best var ÞEGAR kórinn var glaðlegur,
léttur og brosandi. Þá fannst mér sem hann kæmi og faðmaði mig. Mér hlýnaði
allri. Mér þótti einnig gott að sjá konurnar vera á hreyfingu og það var
léttir að sjá að það var meira rými fyrir hverja og eina en oft áður. Það er
stessandi að horfa á kór sem er of þröngt um. Ég fann að ég myndi vilja sjá
meira þannig að konunum væri dreift um, bil á milli eða etv í litlum hópum
hér og þar.

Þegar hins vegar rólegri lögin voru sungin, varð kórinn allur alvarlegri. Þá
var eins og hann fjarlægðist mig, drægi sig til baka, hyrfi kannski
svolítið. Það var ekki alveg eins hrífandi.

Söngurinn skiptir vissulega miklu máli og því betur sem við reynum að þjálfa
og temja röddina okkar því betri kór auðvitað. Hitt er samt alveg örugglega
ekki bull, að framkoma hvers einstaklings fyrir sig hefur jafn mikið að
segja. Brosið og það að vera afslöppuð og mjúk í hreyfingum gerir
kraftaverk.

Ég sá einnig greinilega (gott á mig) hversu mikils virði það er að kórinn er
ekki með bækur, allavega ekki á tónleikum. Það bara passar þessum kór vel að
vera ekki með bækur. Maður sér mjög vel úr áhorfendasætunum þær sem eru að
stelast og verst er þegar ein er með bók og sú sem stendur við hlið hennar
öfugu megin, snýr höfðinu til að reyna að lesa textann hjá hinni. Það er
hrikalegt. Maður finnur stressið alla leið á aftasta bekk.

Dansinn var hreint frábær. Mátulega miklar hreyfingar, tók ekkert frá
söngnum heldur undirstrikaði um hvað hann fjallaði. Hanna og Lella voru
öruggar, flottar, sexy og ég varð aftur svooooo stolt, þó svo ég hefði
hreint ekkert með þetta að gera.
Einsöngur og hljóðfæraleikur var allur ótrúlega frábær og skemmtilegur á að
hlýða. Ég steingleymdi stund og stað, ég kallaði júúhúú og BRAVO og stappaði
og klappaði, reyndar af hálfveikum mætti en nóg til þess að sonur minn
dauðskammaðist sín fyrir mig og vildi bara fara.

Ég raulaði mig í svefn....
masquenadaslavikovskynebudemezakukala..ká.....ZZZZZZZZZZ

Hrund Helgadóttir

Share this page