Lög Léttsveitar Reykjavíkur

1. gr. Heiti félags og varnarþing
Félagið heitir Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Markmið félagsins
Markmið félagsins er að efla söngmennt meðal kvenna á öllum aldri. Markmiði þessu skal félagið ná með því að veita kórfélögum þjálfun í söng og raddbeitingu og kynna kvennakórssöng.

3. gr. Stofnfélagar
Stofnfélagar eru: (sjá fylgiskjal)

4. gr. Aðild að félaginu
Aðild að félaginu eiga allar þær konur:

Sem staðist hafa inntökupróf og samþykki stjórnanda

Greitt hafa þátttökugjöld 

Uppfylla ákvæði 5. gr. um mætingaskyldu og ástundun.

5. gr. Mæting og ástundun
Mætingaskylda er á æfingar kórsins. Sama gildir um tónleika. Geti kórfélagi af einhverjum sökum ekki mætt á æfingu ber honum að tilkynna raddformanni um forföll. Geti kórfélagi af einhverjum sökum ekki tekið þátt í tónleikum skal tilkynna forföll til stjórnanda.

Fari mætingahlutfall kórfélaga niður fyrir 85% af æfingum kórsins þarf viðkomandi sérstakt leyfi stjórnanda til að taka þátt í tónleikum.

6. gr. Brottvikning úr kórstarfi
Stjórn kórsins er heimilt að víkja kórkonu úr félaginu ef mætingahlutfall hennar fer niður fyrir skyldumætingu, sýni hún ítrekað áhugaleysi eða valdi kórnum alvarlegum álitshnekki að mati stjórnar og stjórnanda. Þó skal áður veita kórkonu skriflega áminningu og gefa henni kost á að bæta ráð sitt áður en henni er vikið úr félaginu.

7. gr. Stjórn félagsins
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára og aðrir stjórnarmenn skulu einnig kosnir til tveggja ára, en kjósa má hvern og einn stjórnarmanna til eins árs í senn þaðan í frá. Stjórnin skiptir með sér verkum að kosningu lokinni.

Enginn stjórnarmaður skal sitja samfellt í stjórn lengur en sex ár að undanskildum formanni.
Enginn skal gegna formannsembættinu lengur en fjögur ár í senn en formanni er auk þess heimilt að sitja sem stjórnarmaður í allt að sex ár. Þegar formaður hefur lokið tveggja ára setu er honum heimilt að bjóða sig fram til formanns til eins árs í senn, tvisvar sinnum, allt þar til fjögra ára hámarki er náð.

8. gr. Heiðursfélagar
Stjórn félagsins er heimilt að tilnefna heiðursfélaga og skal sú tilnefning borin undir félagsfund.

9. gr. Starfsár félagsins
Starfsár félagsins hefst í byrjun september og lýkur í lok maí. Reikningsár félagsins er frá 1.september til 31.ágúst

10. gr. Þátttökugjöld
Þátttökugjöld kórsins ákvarðast af stjórn kórsins í upphafi starfsárs.

11. gr. Aðalfundur og boðanir
Aðalfundur félagsins skal haldinn í byrjun starfsárs. Stjórn félagsins skal boða skriflega til aðalfundar með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði, sem birta skal á heimasíðu kórsins og/eða með tölvupósti, skal greint frá fundarstað, fundartíma og dagskrá. Þá skal geta meginefnis tillagna þeirra sem leggja á fyrir fundinn og einnig skulu lagabreytingartillögur sem fram hafa komið fylgja fundarboði.

Aðalfundur telst því aðeins lögmætur hafi löglega verið til hans boðað og hann sóttur af minnst 51% fullgildra félagskvenna. Verði fundur eigi lögmætur skal boða til aðalfundar á ný á sama hátt en með viku fyrirvara og telst hann þá lögmætur óháð fundarsókn. Aðalfundi verður því aðeins frestað ef fullgildar ástæður liggja að baki að mati stjórnar. Hann skal þó haldinn innan tveggja vikna frá frestun og boðað til hans með a.m.k. viku fyrirvara.

12. gr. Dagskrá aðalfundar


Dagskrá aðalfundar:

1) Skýrsla stjórnar.
2) Reikningar lagðir fram.
3) Lagabreytingar.
4) Kosningar.
5) Önnur mál.

13. gr. Fundarseta og vægi atkvæða
Allir félagar njóta málfrelsis á aðalfundi og almennum fundum félagsins. Tillögurétt og kosningarétt hafa einungis þeir sem eru fullgildir félagar sbr. 4. gr. Afl atkvæða ræður úrslitum í atkvæðagreiðslum og kosningum. Falli atkvæði jöfn skal kosið að nýju. Falli atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða.

14. gr. Lagabreytingar
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist aðalstjórn félagsins eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund og skulu þær birtar á sama hátt og aðalfundaboðið sbr. 10. gr. Til breytinga á lögum félagsins þarf samþykki 2/3 (tveggja þriðju) hluta atkvæðisbærra fundarmanna.

15. gr. Starfsvið stjórnar
Stjórnin fer með stjórn félagsins milli aðalfunda. Hún tekur ákvarðanir um félagsstarfið, sér um ráðningu kórstjóra og píanóleikara. Einnig ræður stjórn aðra starfsmenn ef þurfa þykir. Stjórnin hefur eftirlit með því að starfsreglur séu í heiðri hafðar, setur reglur um fjármál kórsins og ber ábyrgð á að þeim sé fylgt eftir.

Formaður (varaformaður í forföllum formanns) og gjaldkeri mega skuldbinda félagið sé samþykki fengið fyrir slíkri skuldbindingu. Stjórnin er ákvörðunahæf þegar a.m.k. fjórar stjórnarkonur eru saman komnar, þeirra á meðal formaður (varaformaður í forföllum formanns).

Stjórnarfund er skylt að halda ef tveir stjórnarmenn krefjast þess skriflega og skal hann þá haldinn innan viku frá beiðni.

16. gr. Fundarboð og störf stjórnarmanna
Formaður boðar til funda og stjórnar þeim. Varaformaður gegnir formannsstörfum í fjarveru formanns. Gjaldkeri annast allar fjárreiður félagsins og skal leggja fram endurskoðaðan efnahags- og rekstrarreikning hvers árs á aðalfundi félagsins. Ritari heldur gjörðabók félagsins, annast félagatal, hefur á hendi umsjón með skjölum félagsins.

17. gr. Félagsfundur
Félagsfund skal halda eftir þörfum. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar óski 1/5 (einn fimmti) hluti félaga þess skriflega og geti tilefnis. Félagsfundir skulu boðaðir með a.m.k. viku fyrirvara á heimasíðu kórsins og/eða með tölvupósti.. Félagsfundur er ákvörðunarhæfur sé löglega til hans boðað. Tillögur félagsfunda skulu hljóta meirihluta atkvæða til samþykktar en falla á jöfnum atkvæðum.

18. gr. Félagsslit
Félagsslit verða eigi ákveðin nema á sérstökum félagsslitafundi sem stjórn félagsins boðar til, með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Sérhverjum félaga skal sent fundarboð þar sem tilefni fundarins er tilgreint. Félagsslitafundur er því aðeins lögmætur að 2/3 (tveir þriðju) fullgildra félaga sæki fundinn. Félaginu verður því aðeins slitið að 2/3 (tveir þriðju) þeirra félaga sem mættir eru á félagsslitafundi samþykki það í leynilegri atkvæðagreiðslu. Verði félagsslitafundur eigi lögmætur skal boðað til hans á ný á sama hátt en með viku fyrirvara og telst hann þá lögmætur óháð fundarsókn.

Ef samþykkt er að slíta félaginu ber að fresta félagsslitafundi en kjósa þrjár konur í skilanefnd er jafnframt skal skipuð formanni félagsins og gjaldkera. Skilanefnd ber að kalla inn allar skuldir félagsins, selja eignir þess til lúkningar skuldum og gera tillögu um ráðstöfun eigna umfram skuldir. Tillögur skilanefndar skulu bornar undir félagsslitafund sem boðaður skal að nýju innan árs frá frestun og á sama hátt og gert var fyrir frestun.

Til samþykktar frumvarpi skilanefndar og endanlegra félagsslita þarf samþykki 2/3 (tveggja þriðju) fullgildra félaga sem til fundarins mæta.

19. gr. Gildistími
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Reykjavík 24.september 2019

Share this page