Smellið á myndir til að fá þær stærri.


Jóhanna V. Þórhallsdóttir


Jóhanna V. Þórhallsdóttir

 | Menningarblað/Lesbók | 7. maí 2005

TÓNLIST - Íslenzka óperan

Smitandi sönggleði

Kórtónleikar

Vortónleikar Léttsveitar Reykjavíkur. M.a. frumflutt fjögur lög eftir Hróðmar I. Sigurbjörnsson og eitt eftir Tómas R. Einarsson. Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanó, Gunnar Hrafnsson kontrabassi, Eggert Pálsson trommur, Ásgeir H. Steingrímsson trompet, Kristín J. Þorsteinsdóttir bongó. Einsöngur: Signý Sæmundsdóttir. Stjórnandi: Jóhanna V. Þórhallsdóttir. Fimmtudaginn 5. maí kl. 16.

LÉTTSVEIT Reykjavíkur, sem þrátt fyrir nafnið er e.t.v. fjölmennasti kvennakór landsins (110), fagnaði tíu ára ævi með svo fjölsóttum tónleikum í ÍÓ að umfjallandi varð að hnupla aukastól. Stemmning var mikil í salnum, og hugvitssöm ljósanotkun í samræmi við t.d. morgunroða, tunglskin og Karíbahafssól í söngtextum setti ásamt búningsskiptum eftir hlé líflegan aukasvip á frísklegan flutninginn.

Tuttugu laga prógrammið byggðist að áunnum hætti á vinsælum dægurlögum frá miðri síðustu öld, þar sem nokkur gengu aftur frá fyrri dagskrám en önnur voru "ný", ef svo mætti kalla ellismelli frá bernskuárum afa og ömmu. Trúlega endurspeglaði það ekki aðeins smekk söngkvenna og aðstandenda, heldur einnig hvað nútímapopp augnabliksins er hrikalega laglínusnautt hjá því sem gerðist fyrir aldarþriðjungi.

Meðal hápunkta fyrri hálfleiks mætti nefna fallegt lag Mattis Borg, Langferð (Aften), Kvöld í Moskvu Solovievs í fínni útsetningu Lisu Taillacq og - sem sérstaka rúsínu í tilefni afmælisins - fjögur splunkuný lög eftir Hróðmar I. Sigurbjörnsson við ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur, er kórinn frumflutti við þetta tækifæri. Þótt lög Hróðmars fetuðu vandrataðan stíg millimúsíkur með skemmtilegum rytmískum tilþrifum og hæfilega framsæknu hljómaferli voru kröfur þeirra auðheyranlega í efra kanti þess er leggjandi er fyrir áhugamannakór, en tókust samt furðuvel.

Líkt og oft áður færðist aukinn kraftur og gleði í flutninginn eftir hlé. Rak hér hver klapphvatinn annan, og verður að nægja að nefna Lille lysegrønne sang (Åge Stentoft), Volare (Modugno) ásamt tveim bráðfallegum lögum Tómasar R. Einarssonar (með höfundinn við kontrann), Stolin stef og hinum hér frumflutta beguine, Morgunn; bæði við eigin ljóð. Föstum liðum fyrir aukalög lauk með Vilja Lied og Wien, du Stadt meiner Träume með Signýju Sæmundsdóttur í einsöngshlutverki.

Sem við fyrri tækifæri var einkum sönggleði kórsins engu lík, enda stóðu samtakamáttur og inntónun vel undir væntingum. Hrynsveitin var og örugg í öllu sínu í prýðilegu jafnvægi við sönginn, að ógleymdum "obbligato" trompet- og flygilhornblæstri Ásgeirs Steingrímssonar, er þó hefði stundum mátt flíka ögn sjálfstæðara raddhlutverki í útsetningum.

Ríkarður Ö. Pálsson

Umfjöllun um myndina KÓRINN 2005

Silja Hauksdóttir leikstjóri

Silja Hauksdóttir leikstjóri

 | Kvikmyndir |11. október 2005

Kvikmyndir | Heimildarmynd eftir Silju Hauksdóttur frumsýnd í dag

Fylgst var meðal annars með kórferðalagi Léttsveitar Reykjavíkur. 

Eftir Höskuld Ólafsson

HEIMILDARMYNDIN Kórinn eftir Silju Hauksdóttur verður frumsýnd í kvöld klukkan 18 í Háskólabíói.

HEIMILDARMYNDIN Kórinn eftir Silju Hauksdóttur verður frumsýnd í kvöld klukkan 18 í Háskólabíói. Kórinn er heimildarmynd um Léttsveit Reykjavíkur sem er skipuð 120 konum og í myndinni er fylgst með nokkrum kórfélögum, persónulegum högum þeirra og bakgrunni.

Þá er einnig fylgst er með kórstarfi Léttsveitarinnar, æfingum og tónleikum en einnig fjársöfnun, svo sem sölu á klósettpappír og kökum í Kolaportinu.

Slegist er í för með kórnum til Ítalíu þar sem kórinn heldur tónleika í Veróna og Feneyjum og loks er farið í útilegu í Galtalæk þar sem sungið er í íslenskri sumarnótt.

Silja Hauksdóttir leikstjóri segir að kórstarfið, og það samfélag sem myndist í slíkum hópum, sé í raun eins konar þverskurður af samfélaginu öllu og því mjög áhugavert hráefni til heimildarmyndargerðar.

"Þessi mynd er að því leytinu til rannsókn á samfélaginu en það sem er líka svo merkilegt við þessa mynd er að það verkefni sem þetta samfélag tekst á við, er söngurinn og tónlistin."

Heimildarmyndin um Kórinn hefur verið í vinnslu í eitt og hálft ár og segir Silja að konunum hafi aldrei liðið illa í návist kvikmyndagerðarfólksins. Þær hafi þvert á móti verið óhemju skemmtilegar og lífsglaðar á meðan tökum stóð.

"Þær voru allan tímann ótrúlega samvinnufúsar og fljótar að venjast kvikmyndatökuvélinni og áður en maður vissi af var hún orðin að hverjum öðrum kórmeðlimi."

Um heimildarmyndaformið segir Silja að það sé gjörólíkt því venjulegu kvikmyndaformi sem hún hafi hingað til unnið með.

"Maður hefur til dæmis enga stjórn á atburðarásinni og neyðist því oft til að spila með þeim óvæntu atvikum sem gerast hverju sinni. Þetta er mjög ólíkt því að vinna með handrit þar sem hvert einasta smáatriði er skipulagt út í hörgul."

Þrátt fyrir það vill Silja ekki skera úr um hvort formið sé erfiðara.

"Þetta er hvorki einfaldara né erfiðara, bara allt öðruvísi."

Kórinn er eins og áður sagði frumsýnd í kvöld klukkan 18 í Háskólabíói og er von á Léttsveitinni allri eins og hún leggur sig á frumsýninguna

"Mér skilst að þær séu mjög spenntar og í miklu frumsýningarstuði," segir Silja að lokum.

Framleiðandi myndarinnar er Björn B. Björnsson fyrir Spark.

Share this page