Blaðaumfjöllun des 2006

Söngfuglarnir í Léttsveit Reykjavíkur: Sigrún Birgisdóttir, Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, Oddný Sigsteinsdóttir, Jóhanna Þórhallsdóttir, Ingibjörg Jónasdóttir, Guðrún Steingrímsdóttir, Auður Aðalsteinsdóttir, Herdís Eiríksdóttir, Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir og Freyja Önundardóttir. — Morgunblaðið...
Söngfuglarnir í Léttsveit Reykjavíkur: Sigrún Birgisdóttir, Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, Oddný Sigsteinsdóttir, Jóhanna Þórhallsdóttir, Ingibjörg Jónasdóttir, Guðrún Steingrímsdóttir, Auður Aðalsteinsdóttir, Herdís Eiríksdóttir, Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir og Freyja Önundardóttir. — Morgunblaðið...
Banana-döðlu sherrysæla
Banana-döðlu sherrysæla
Rauð jól
Rauð jól
Sherrytriffle
Sherrytriffle
Reynistaðatriffle
Reynistaðatriffle
Appelsínueftirréttur
Appelsínueftirréttur
Rjómarönd með karamellusósu
Rjómarönd með karamellusósu
Sigguterta
Sigguterta
Skyr í hátíðarbúningi
Skyr í hátíðarbúningi
Hátíðartriffle með kirsuberjum
Hátíðartriffle með kirsuberjum
Eplakakan hennar mömmu
Eplakakan hennar mömmu
Súkkulaðibomba
Súkkulaðibomba

1. desember 2006 | Jólablað

Konurnar í Léttsveit Reykjavíkur töfra fram eftirrétti á jólaborðið

Þær taka á móti Guðbjörgu R. Guðmundsdóttur klæddar rauðum svuntum, jólatónar fylla loftið í raðhúsi í Fossvoginum þar sem borðstofuborðið svignar undan eftirréttum sem sóma sér vel á hvaða jólaborði sem er.

Konurnar í Léttsveit Reykjavíkur eru búnar að æfa jólalögin fyrir jólatónleikana frá því í október svo þær eru löngu komnar í jólaskap. Þær syngja bæði hefðbundin jólalög og eitthvað gætir líka kúbanskra áhrifa á tónleikunum, sem verða í Langholtskirkju 7. og 9. desember, því þangað lögðu þær leið sína á árinu.

En hvaða lag finnst þeim ómissandi að syngja á aðventu? Það stendur ekki á svari frá þeim stöllum, jólalagið Jól eftir Jórunni Viðar er yndislegt og verður að vera á dagskrá kórsins um hver jól.


Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir

" Ég hef verið með þennan eftirrétt á aðfangadagskvöld í u.þ.b. 20 ár og hann er orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu. Ég geri alltaf ríflegan skammt og set í litlar skálar til að nota á aðfangadagskvöld og þá leynist mandla í einhverri skálinni. Fjölskyldan er orðin mjög leikin í að greina möndluna frá súkkulaðibitum og makkarónumulningi. Ég kýs að skammta í litlar skálar til að tryggja að mandlan gangi út þó mannskapurinn sé orðinn vel mettur af jólasteikinni. Restin er hins vegar sett í stærri skál sem vinsælt er að laumast í á jóladaginn."

Sérrí-triffli

4 eggjarauður

4 msk. sykur

4-5 dl rjómi

½ dl sérrí t.d. gott að nota Dry Sack

15-30 makkarónukökur eftir stærð og smekk

100 g suðusúkkulaði

4 blöð matarlím

Byrjið á að saxa niður súkkulaðið, myljið makkarónukökurnar og leggið matarlímið í bleyti í köldu vatni. Þeytið rjómann og stingið í kælinn. Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til massinn er vel stífur. Hitið svo sérrí yfir vatnsbaði og bræðið matarlímið í því (mikilvægt er að það leysist vel upp). Kælið sérríið svolítið. Að lokum er öllu blandað varlega saman og sett í skál eða skálar sem síðan eru látnar standa í kæli í 4-5 tíma áður en þær eru bornar fram.

Það gleður augað að skreyta réttinn svolítið og þá eru t.d. jarðarber tilvalin.

Freyja Önundardóttir formaður

"Þetta er gömul uppskrift sem hefur fylgt mér og mínum á stórhátíðum í tvo áratugi. Upprunalega fékk ég hana úr Nýju lífi en það sem er gott við þessa tertu er að hún geymist mjög vel og svo er hún bráðholl, bananar, döðlur, möndlur og 70% hollustusúkkulaði í henni að ógleymdu sérríinu. Þetta er allt sem við þurfum til að næra okkur og ylja í skammdeginu."

Banana-döðlu sérrísæla

Botn

3 eggjahvítur

150 g sykur

150 g möndlur

½ tsk. lyftiduft

Egg og sykur þeytt saman, möndlur og lyftiduft hrist saman (gott að setja í poka) blandað vel saman við hvítu/sykurþeytinginn. Bakað í u.þ.b. 35-40 mínútur við 180°C.

Fylling

250 g döðlur, saxaðar

2 bananar í bitum

sérrí

Banönum og döðlum blandað saman, hella vel af sérrí yfir ávextina og láta standa yfir nótt. Maukið hrært saman og sett á botninn

Hjúpur

100 g 70% suðusúkkulaði

3 msk. ólífuolía

Bræðið súkkulaði í ólífuolíu, hellið yfir kökuna og látið fljóta yfir hana. Skreytt eftir tilefni og aðstæðum. Borið fram með þeyttum rjóma

Jóhanna Þórhallsdóttir kórstjóri

"Rauðu jólin gerum við mamma mín, sem heitir Guðmunda, alltaf fyrir börnin. Rétturinn er fljótlegur og jólalegur."

Rauð jól

tveir pakkar af gamaldags Jello-hlaupi með jarðarberjabragði

ber eftir smekk, t.d. jarðarber og bláber

Jello-hlaupið leyst upp í vatni heitu og köldu eins og segir á pakkanum. Sett í kæli í klukkutíma og síðan bætt við berjum, t.d. jarðarberjum og bláberjum.

Appelsínueftirréttur

Þegar fólk býr til appelsínueftirréttinn þá ilmar húsið af jólalykt.

4 appelsínur afhýddar og skornar í þunnar sneiðar

1½ bolli vatn

1¼ bolli sykur

1 kúfuð tsk. kanill

4 negulnaglar

Vatnið er soðið með sykri, kúfaðri tsk. af kanil og 4 negulnöglum í 10 mínútur. Hellt yfir appelsínurnar. Rétturinn er tilbúinn eftir að hafa staðið í klukkutíma í ísskáp eða bara á köldum stað.

Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir

"Mamma mín, Kristín Claessen og amma mín Soffía Claessen, bjuggu alltaf til Reynistaðatriffle fyrir jólin og ég geri það líka og held þeim sið að gera það bara fyrir jólin. Þessi eftirréttur verður einfaldlega bara að vera á borðum á aðfangadagskvöld."

Reynistaðatriffli

möndlumakkarónur

púrtvín eða sérrí

jarðarberjasulta

Setjið möndlumakkarónur í botninn á fínni skál. Dreypið púrtvíni eða sérríi yfir og látið standa nokkra stund. Setjið jarðarberjasultu yfir. Þá er stíft vanillukremið sett yfir. Gott að hafa svolítið þykkt lag af því. Að lokum er skreytt með þeyttum rjóma.

Vanillukrem

½ l mjólk

4 eggjarauður

180 g sykur

5 blöð matarlím

2 tsk. smjör

salt,

vanilla

Leggið matarlímið í bleyti. Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til létt og ljóst. Hellið sjóðheitri mjólk hægt og ofurvarlega út í og hrærið vel í á meðan. Hitið síðan í potti þar til perlar við kantinn. Má alls ekki sjóða. Hellið í skál, setjið matarlím, smjör, salt og vanillu út í. Hrærið vel. Látið stífna í nokkra klukkutíma á köldum stað, t.d. í ísskáp, yfir nótt.

Herdís Eiríksdóttir

"Siggukökuna fékk ég hjá mömmu minni, Sissu, en hún hafði fengið hana hjá ömmusystur minni, Siggu. Tertan er á borðum hjá okkur við ýmis hátíðleg tækifæri og er í uppáhaldi."

Sigguterta

Botnar

5 eggjahvítur

250 g sykur

2½-3 bollar Rice Krispies

Stífþeytið eggjahvíturnar, bætið sykrinum við og þeytið. Hrærið að lokum Rice Krispie-ið varlega saman við. Sett í tvö form (með bökunarpappír), eða bara beint á ofnplötuna.

Bakað við 130-150°C í 1-2 klukkutíma.

Á milli

½ l rjómi

200-300 g súkkulaðirúsínur

Rjóminn þeyttur og settur á annan botninn. Best að skutla súkkulaðirúsínunum ofan í rjómann, svo þær liggi ekki ofan á. Hinn botninn settur ofan á.

Krem

5 eggjarauður

6 msk. flórsykur

50 g suðusúkkulaði

smá smjörlíki (um 30-40 g)

Þeytið eggjarauður og flórsykur saman. Bræðið súkkulaðið með smjörlíkinu. Blandið súkkulaðinu varlega saman við eggjarauðurnar/flórsykurinn. Hellið kreminu á kökuna og setjið hana strax í kæli í allavega klukkutíma (því kremið er þunnt).

Sigrún Birgisdóttir

"Þetta er eldgömul uppskrift sem ég fékk einu sinni í matreiðsluklúbbi og hef haldið uppá síðan. Hún er óbökuð og það er mjög þægilegt að geta gert hana kvöldið áður. Hún geymist alveg frábærlega og svo er upplagt að frysta hana líka."

Súkkulaðibomba

Botn

2 msk. hunang

75 g smjör

250 g hafrakex

Bræðið saman hunang og smjör. Myljið hafrakex og hrærið saman við. Þrýstið kexmylsnunni ofan í lausbotna tertumót (24 cm).

Fylling

400 g suðusúkkulaði

¾ dl af sterku kaffi

4 msk. appelsínulíkjör (eða appelsínusafi)

½ l rjómi

Bræðið súkkulaðið í kaffinu og bætið líkjörnum/appelsínusafanum við. Kælið. Stífþeytið rjóma og blandið varlega saman við kaffisúkkulaðið. Ef súkkulaðið er ekki nógu kælt verður fyllingin of lin. Hellið fyllingunni ofan á kexbotninn og kælið í a.m.k. hálfan sólarhring fyrir framreiðslu.

Gott er að sigta kakó ofan á bombuna og skreyta með ferskum berjum. Sumum finnst ómissandi að hafa þeyttan rjóma með.

Best er að sleppa botninum úr lausbotna tertumótinu. Nota bara hringinn út mótinu og gera bombuna beint á tertudiskinn.

Ingibjörg Jónasdóttir

Hún mamma mín, Oddný Nicolaidóttir, var alltaf með þennan eftirrétt á borðum á jóladag og bar hann fram í þessari fallegu skál sem hún notar enn í dag. Skálin er um 55 ára gömul og er í mínum huga ómissandi hluti af jólunum. Uppskriftin er að danskri fyrirmynd en upphaflega fékk mamma þennan eftirrétt austur á Eyrarbakka hjá föðurömmu minni. Kakan er einföld, fljótleg, ódýr og góð og hana á að laga 1-2 dögum áður en hún er borin fram."

Eplakakan hennar mömmu

500 g græn epli, flysjuð og brytjuð

50 g hrásykur

1 tsk. vanillusykur

1-2 dl vatn

Þessu er öllu skellt í pott og soðið saman þar til eplin eru mjúk og meyr og látið kólna.

150 g tvíbökur, muldar fínt

50 g hrásykur

50 g smjör

Sykri og tvíbökumylsnu blandað saman og brúnað vel í smjörinu, hrærið stöðugt í svo ekki brenni. Kælt aðeins. Lag af tvíbökumylsnunni sett á botninn í skál, því næst eplamauk og þannig koll af kolli.

Efst er settur þeyttur rjómi og skreytt með smá mylsnu. Þeyttur rjómi er ómissandi hluti af kökunni, berið því fram aukarjóma í skál.

Auður Aðalsteinsdóttir

"Ég var í matreiðsluklúbbi fyrir mörgum árum og fékk m.a. þessa uppskrift þar. Hún er einföld og fljótleg og hægt að gera botninn kvöldið áður."

Hátíðartriffli með kirsuberjum

10 makkarónukökur

6 msk. portvín, sérrí eða safi af appelsínum/kirsuberjum

1 dós niðursoðin kirsuber

Krem

2 eggjarauður

1-2 msk. sykur

1-2 tsk. vanillusykur

1 peli rjómi

Fyrir botnin eru makkarónukökurnar muldar í botn á stórri skál eða í 4 litlar. Hellið víni eða safa yfir. Dreifið berjunum yfir makkarónurnar.

Í kremið skal þeyta saman eggjarauðum, sykri og vanillusykri þar til blandan verður létt og ljós. Stífþeytið rjómann og blandið honum saman við eggjarauðurnar. Setjið kremið á botninn rétt áður en trifflið er borið fram. Skreytið með þeyttum rjóma og berjum. Í staðinn fyrir kirsuber má nota jarðarber. Uppskriftin er fyrir fjóra.

Guðrún Steingrímsdóttir

"Ég hef notað þessa uppskrift í mörg ár og m.a. í norska sendiráðinu þar sem ég elda."

Skyr í hátíðarbúningi

Skyrbúðingur

4 matarlímsblöð

500 g skyr, hreint

50-75 g sykur

2½ dl rjómi

1 tsk. vanilludropar

1 dl bláber

Leggið matarlímsblöðin í vatn í 5 mín.

Hrærið upp skyrið með sykri, tveimur matskeiðum af rjóma og vanilludropum. Þeytið afganginn af rjómanum og blandið honum varlega saman við skyrblönduna. Kreistið vatnið úr matarlíminu og leysið það upp í tveimur matskeiðum af sjóðandi vatni. Hellið því í mjórri bunu saman við skyrblönduna og hrærið varlega á meðan. Setjið bláber í botninn á skál. Hellið búðingnum ofan á og kælið í ísskáp í a.m.k. 1 klukkustund.

Bláberjahlaup

1-2 dl bláber

3 matarlímsblöð

1 dl vatn

1 dl sykur

2 msk. sítrónusafi

Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn í 5 mín. Setjið bláber, vatn, sykur og sítrónusafa í pott og hleypið upp suðu. Kreistið vatnið úr matarlíminu og bræðið þau í bláberjablöndunni. Kælið aðeins og hellið yfir búðinginn. Kælið búðinginn í ísskáp í a.m.k. tvo til þrjá klukkutíma. Mjög gott er að búa búðinginn og hlaupið til daginn áður. Skreytið með þeyttum rjóma. Nota má aðrar berjategundir. Uppskriftin er fyrir 6-8.

Oddný Sigsteinsdóttir

"Þessi uppskrift að rjómarönd hefur verið í minni ætt í óralangan tíma eða í hálfa öld. Mamma mín, Herdís Antoníusardóttir frá Núpshjáleigu í Berufirði, kom með þessa uppskrift að austan og í okkar fjölskyldu þykir hún alveg ómissandi. Við berum hana bara fram á jólunum og allir sem fara að búa í fjölskyldunni þurfa að læra að búa til þennan eftirrétt. Það er dálítil kúnst að búa til rjómaröndina en það lærist eins og annað. Börnin eru kannski ekkert voðalega hrifin af rjómaröndinni en þegar bragðlaukarnir fara að breytast á kynþroskaaldrinum þá fellur eftirrétturinn í góðan jarðveg. Það má kannski segja að þegar unglingunum í fjölskyldunni fer að líka rétturinn þá eru þeir komnir í fullorðinna manna tölu."

Rómarönd með karamellusósu

2 l mjólk

2 tsk. vanilludropar eða eftir smekk

4 eggjarauður

120 g sykur

20 blöð matarlím

4 stífþeyttar eggjahvítur

2 pelar þeyttur rjómi

Mjólkin ásamt vanilludropum hitað upp að suðu. Eggjarauður og sykur þeytt vel saman og heitri mjólkinni bætt út í smátt og smátt. Þetta síðan snarphitað að suðu. Matarlímið, sem hefur legið í köldu vatni, undið og sett út í löginn og látið kólna. Hrært í af og til á meðan. Eggjahvítum og rjóma bætt út í. Sett í kalt, hringlaga, mynstrað form með gati í miðjunni. Sett í ísskáp yfir nótt. Losað úr formi með því að kæla botn forms með köldu vatni. Skreytt með rjóma og niðursoðnum ávöxtum.

Karamellusósa

1 bolli sykur

½ lítri af heitri mjólk

4-5 msk. þeyttur rjómi

Sykur brúnaður í potti, heitri mjólk bætt út í smátt og smátt og látið kólna. Þeyttur rjómi settur ofaná sósu og sósan er pískuð til áður en sósan er borin fram.

gudbjorg@mbl.is

 

 

Share this page