27. nóvember 2009 | Jólablað
Jólatertur að hætti kórkvenna
Syngjandi bakarar Aðventutónleikar og jólabakstur eru ómissandi hjá Margréti og Kristínu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Í Kvennakórnum Léttsveit Reykjavíkur eru 117 konur en kórinn hefur starfað síðan árið 1995. Líkt og nafnið vísar til syngur kórinn létt og leikandi lög en stjórnandi hans er Jóhanna V. Þórhallsdóttir. Jólatónleikar kórsins verða haldnir í Bústaðakirkju dagana 8. og 12. desember en tvær kórkonur gáfu sér stund á milli stríða til að deila góðum tertuuppskriftum með lesendum.
Eftir Maríu Ólafsdóttur
maria@mbl.is
Ég baka þessa köku allan ársins hring, þetta er svona uppáhaldsterta og ég nota hana mikið í eftirrétt. Ég bjó lengi í Englandi og fann þar uppskriftina í blaði. Hún hefur því ekki farið víða hér á Íslandi nema hún var reyndar sett í matreiðslubók sem kórinn gaf út þannig að þær baka hana stelpurnar. Það hefur dregið úr smákökubakstri á heimilinu eftir að börnin uxu úr grasi og helst að ég baki eina sort fyrir eiginmanninn sem honum finnst ómissandi. Það eru engin jól hjá honum fyrr en hann fær hollar rúsínusmákökur með haframjöli og ýmsu öðru,“ segir Margrét Þorvaldsdóttir, formaður kórsins.
Íslenskar og enskar hefðir
Það eru ríkar matarhefðir í fjölskyldu Margrétar á jólum og áramótum. Fjölskyldan bjó í 16 ár á Englandi en fjölskyldan hélt sig að mestu við íslenskar hefðir á jólunum. Þó komst sú hefð á að vera alltaf með kalkún á borðum á aðfangadag og möndlugraut og möndlugjöf á eftir. Þessu segir Margrét að megi eiginlega ekki bregða út af þar sem slíkt hafi nærri eyðilagt jólin. Á jóladag er síðan borðað íslenskt hangikjöt.
Sungið blaðlaust
„Ég hef verið í kórnum síðan árið 1999 og jólin geta komið eftir allt umstangið í kringum tónleikana. Þetta er skemmtilegur tími og fjölskyldumeðlimir koma á tónleikana. Við byrjuðum að æfa lögin óvenjusnemma í ár en skemmtilegasti tíminn fer í hönd þegar búið er að læra textana og maður getur sungið blaðlaust,“ segir Margrét.
Marensrúlluterta
4 eggjahvítur
250 g sykur
45 g möndluflögur
flórsykur
Fylling
3 dl rjómi
250 g fersk jarðarber
Aðferð:Hitið ofninn í 220° C. Þeytið eggjahvítur, bætið sykri smátt og smátt saman við og þeytið áfram þangað til hvíturnar eru vel stífar. Þessu er síðan smurt á bökunarpappír sem gott er að hafa í rúllutertuformi (40x27cm) og möndluflögum stráð yfir. Bakist efst í 220°C heitum ofni í átta mínútur. Lækkið þá hitann í 160°C og bakið áfram í 10 mínútur. Marenstertunni er síðan hvolft á bökunarpappír og pappírinn sem var undir er tekinn af. Kælið í 10 mínútur.
Þeytið rjómann og smyrjið á tertuna. Dreifið niðurskornum jarðarberjum yfir rjómann (skiljið eftir 3-4 ber til að nota í skraut). Rúllið tertunni upp og geymið í kæli í 30 mínútur. Notið bökunarpappírinn sem stuðning þegar tertunni er rúllað upp. Stráið flórsykri með sigti yfir tertuna rétt áður en hún er borin fram og skreytið með jarðarberjum.
Þessi terta er fínn eftirréttur eða á veisluborðið í jólakaffiboðinu.