Viðtal við Elísabetu Guðmunds - Lellu 2019

Kóræfing Elísabet E. Guðmundsdóttir fyrir framan kórfélagana í vikunni. Vortónleikarnir verða í maí. — Morgunblaðið/Hari

Kóræfing Elísabet E. Guðmundsdóttir fyrir framan kórfélagana í vikunni. Vortónleikarnir verða í maí. — Morgunblaðið/Hari

| Innlendar fréttir |21. mars 2019

Lella í Léttsveitinni og Léttsveiflunum

• Byrjaði söngæfingar í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar 

Léttsveit Reykjavíkur, fjölmennasti kvennakór landsins með um 120 söngvara, heldur árlega vortónleika í Háskólabíói 9. maí nk. og að vanda verður boðið upp á þétta dagskrá, þar sem Sigga Beinteins, Jógvan Hansen og Guðrún Gunnarsdóttir koma fram sem gestasöngvarar.

Elísabet E. Guðmundsdóttir, eða Lella eins og hún er gjarnan kölluð, er 2. sópran og hefur verið í kórnum frá byrjun. Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur var stofnuð 1995 og varð sjálfstæður kór 2000.

Söngurinn mikilvægur

Lella byrjaði snemma að syngja og segir að foreldrarnir hafi stjórnað því að hún fór í Sólskinskórinn, barnakór sem söng í útvarpinu, þegar hún var í barnakólanum Grænuborg. „Pabbi var mjög söngelskur og þegar sumir krakkar á mínum aldri fóru í sunnudagaskóla fór ég á söngæfingar í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu á sunnudagsmorgnum.“

Fljótlega fór Lella í Dansskóla Rigmor Hanson. „Æfingarnar voru fyrst í bragga við Snorrabraut og við komum víða fram, meðal annars í Þjóðleikhúsinu, þaðan lá leiðin í ballett og svo fór ég að kenna líkamsrækt í Kramhúsinu, þegar það hóf starfsemi fyrir yfir 30 árum. Ég kenni þar enn í forföllum, en söngurinn er samt aðalatriðið.“

Lella var lengi í sýningarhópi í djassballett hjá Báru og einnig áberandi í tískusýningum á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar. „Það var svo mikið um þessar tískusýningar á tímabili, til dæmis á ferðakynningum hjá Ingólfi í Útsýn á Hótel Sögu og svo voru það lopavörukynningarnar í hádeginu á Hótel Loftleiðum. Auk þess sá ég oft um tískusýningar fyrir hin og þessi fyrirtæki.“

Samkvæmt framansögðu er ljóst að Lella hefur varið drjúgum tíma á sviði og undanfarna áratugi með kórnum. „Við vorum í sérlega vel heppnuðum æfingabúðum á Hótel Hamri í Borgarfirði fyrir skömmu, en á tónleikunum syngjum við vinsæl lög frá sjötta og sjöunda áratugnum,“ segir hún og á vart til orð til að lýsa því hvað kórastarfið sé gefandi. „Þessu fylgir svo mikil vinátta og gleði og það er alltaf gaman að fara á kóræfingu.“

Þegar Léttsveitin syngur á tónleikum syngja konurnar aldrei eftir nótum heldur læra öll lög utanbókar. Jóhanna Þórhallsdóttir stjórnaði kórnum fyrstu 17 árin og Gísli Magna hefur stjórnað honum undanfarin sjö ár. „Starfsemin er mjög metnaðarfull og út frá kórnum hafa sprottið ýmsir undirhópar. Við erum til dæmis með öflugan gönguhóp á sumrin og um 30 konur spila saman golf. Við köllum okkur Léttsveiflurnar og förum í æfingaferð til Póllands í lok maí,“ segir Lella.

 steinthor@mbl.is

Share this page